Hlutverk safnasjóðs er samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 að styrkja starfsemi safna sem undir lögin falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn veitt styrki til viðurkenndra safna, samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og önnur verkefni.

Önnur söfn, höfuðsöfn sem og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði í samstarfi við viðurkennd söfn, þar sem viðurkennda safnið er ábyrgðaraðili.

Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.

Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar úr safnasjóði tvisvar sinnum á ári, að fenginni tillögu safnaráðs. Safnaráð auglýsir ár hvert eftir umsóknum um styrki úr safnasjóði í dagblöðum og með öðrum sannarlegum hætti.

Aðalúthlutun safnasjóðs

Aðalúthlutun úr safnasjóði er á fyrsta ársfjórðungi. Umsóknarfrestur fyrir þá úthlutun er að jafnaði í lok árs árið áður.

Frá og með aðalúthlutun 2020 verður sú breyting á, að úthlutun úr safnasjóði er óskipt. Fallið er frá notkun hugtakanna „rekstrar- og verkefnastyrkir“ og þess í stað veittir styrkir úr safnasjóði í ákveðnum flokkum.

Styrkir í aðalúthlutun safnasjóðs eru annað hvort til eins árs eða til 2-3 ára og eru þá kallaðir Öndvegisstyrkir til aðgreiningar. Einungis viðurkennd söfn geta sótt um Öndvegisstyrki úr safnasjóði. Vakin er athygli á því að í styrkjum til eins árs, er bæði hægt að sækja um styrki sem falla undir lög og reglur um verkefnastyrki (flokkar a-h) og um styrki sem falla undir lög og reglur um rekstrarstyrki (flokkur i).

Viðurkennd söfn geta sótt um styrki til eins árs auk þess sem önnur söfn, höfuðsöfn, safnvísar, setur og sýningar geta sótt um styrk úr safnasjóði í samstarfi við viðurkennd söfn, þar sem viðurkennda safnið er ábyrgðaraðili. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.

Aukaúthlutun safnasjóðs

Aukaúthlutun safnasjóðs er í lok árs. Í aukaúthlutun safnasjóðs geta viðurkennd söfn sótt um styrki sem tileinkaðar eru símenntun og stafrænni kynningu.

 

ATHUGIÐ:

  • Sótt er um alla styrki í gegnum umsóknavef safnaráðs, umsóknir í vinnslu og sendar umsóknir má finna á Mínum síðum.
  • Ekki er sjálfkrafa gerð tillaga um styrk til allra umsækjenda sem eru styrkhæfir, heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins og fjölda og gæðum umsókna.
  • Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur eru ekki teknar til greina.
  • Safnaráð fer yfir allar umsóknir í safnasjóð og metur þær með faglegum hætti með hliðsjón af safnalögum nr. 141/2011, úthlutunarreglum safnasjóðs nr. 551/2016 og verklagsreglum safnaráðs.