Fagleg skráning listaverka

Skráning safngripa er mikilvæg undirstaða í öllu safnastarfi.

Fagleg skráning fylgir ákveðnum stöðlum varðandi skráningaratriði og orðaforða og tryggir varðveislu upplýsinga og aðgengi að þeim.

Skráningarkerfi eru mismunandi en nauðsynlegt að unnið sé með rafrænan gagnagrunn sem er leitarbær. Mikilvægt er að tryggja örugga afritun og geymslu á gögnum.

Skráningaratriði*

Lágmarksskráningaratriði eru undirstrikuð. Önnur skráningaratriði eru æskileg.

A) Upplýsingar um verkið

Skráningarnúmer. Einstakt númer fyrir hvert verk. Yfirleitt hlaupandi númer ásamt einkennisstöfum sem tengir skráningu við ákveðið verk.

Nafn höfundar. Mikilvægt er að nafnið sé alltaf eins skrifað og er hægt að fá nafnalista á bókasafni Listasafns Íslands. Erlend nöfn hafa ættarnafn fyrst svo eiginnafn. Íslensk nöfn eru skrifuð með hefðbundnum hætti.

Æskilegt er að skrá lágmarks upplýsingar um höfundinn eins og fæðingar- og dánarár. Einnig getur komið sér vel að skrá þjóðerni listamanns. Heimildir um listamenn og sýningarferil listamanna liggja víða á tölvutæku formi, m.a. hjá www.umm.is (Opnast í nýjum vafraglugga)

Verkheiti:  Ýmist frá höfundi sjálfum, úr heimildum eða lýsandi heiti. Æskilegt er að það komi fram sérstaklega hvaðan heitið kemur, t.d. frá listamanni eða upplýsingar um aðra heimild. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef skrásetjari gefur verkinu lýsandi heiti  (t.d. Uppstilling með eplum, Drengur með bláa húfu).

Annað verkheiti: Heiti á erlendum tungumálum, eða í sumum tilfellum önnur nöfn sem hefð hefur skapast um.

Eintak/upplag. Þ.e. hvaða eintak af fjölfeldum, grafík, bókum og öðru er um að ræða. t.d. 24/50.

Ef verkið tilheyrir myndverkaröð þarf að skrá:

Aðalheiti raðar eða undirraðar

Alþjóðlegt númer raðar

Raðtákn hvers myndverks í röð

Fjöldi verkeininga. Skráir í hversu mörgum hlutum samsett verk eru.

Stutt lýsingu á verkinu er mikilvæg til að lýsa einstökum verkhlutum og efniðvið, einkum  þegar um flókin verk er að ræða.

Nafn framleiðanda. Notað þegar hugverk er framleitt af öðrum: t.d.útgefandi bókar eða grafíkmyndar, framleiðandi fjölfeldis eða videoverks o.s.frv.

Framleiðsluland og Framleiðslustaður. Segir til um hvar verkið er búið til.

Upphafsár og Fullgert ár segja til um aldur verks. Í flestum tilfellum er aðeins um “Fullgert ár” að ræða, en einnig eru dæmi þess að verk hafi verið fleiri ár í smíðum, og þá koma þær upplýsingar þarna fram. Ef ekki er til nákvæmt ártal má skrá það sérstaklega t.d. “fyrir” “eftir” eða “um”.

Stærð/umfang. Ath. að hæð er alltaf á undan breidd. Taka þarf fram hvaða eining er notuð t.d. cm. Ef um myndbönd er að ræða þarf að gera grein fyrir tímalengd verksins.

Grein og Undirgrein. Mikilvæg leitartæki til flokkunar og er mikilvægt að velja af samræmdun listum. Hér fyrir neðarn eru listar sem Listasafn Íslands notar og æskilegt er að önnur söfn nýti sér einnig til að tryggja samræmi. Reyndar eru þetta ekki tæmandi listar heldur unnir út frá safneign Listasafns Íslands. Ef bæta þarf við listana er best að gera það í samráði við Listasafn Íslands. Listasafn Íslands er einnig með skilgreiningar á hugtökum sem hægt er að styðjast við þegar verk eru flokkuð við skráningu.

Grein

  • bóklist
  • grafík
  • ljósmyndun
  • málaralist
  • nýir miðlar
  • samklipp
  • skúlptúr
  • teiknun
  • textíllist

Undirgrein

  • akrýlmálverk
  • blönduð tækni-gra.
  • blönduð tækni-ljó.
  • blönduð tækni-mál.
  • blönduð tækni-skú.
  • blönduð tækni-tei.
  • blönduð tækni-tex.
  • blýantsteikningar
  • bókverk
  • bútasaumsverk
  • dúkristur
  • einþrykk
  • freskur
  • gifsmyndir
  • glerskúlptúrar
  • glerverk
  • gvassmyndir
  • handmálaðar ljósmyndir
  • hekluð verk
  • hljóðverk
  • höggmyndir
  • innsetningar
  • kolateikningar
  • koparstungur
  • krítarteikningar
  • lágmyndir
  • lakkmálverk
  • leirmyndir
  • litljósmyndir
  • málmristur
  • málmskúlptúrar
  • mósaík
  • myndvefnaður
  • olíumálverk
  • pappírsskúlptúrar
  • pastelmyndir
  • pennateikningar
  • plastskúlptúrar
  • samklipp
  • samsettar ljósmyndir
  • silkiþrykk
  • skissubækur
  • steinskúlptúrar
  • steinþrykk
  • svarthvítar ljósmyndir
  • temperamálverk
  • textílskúlptúrar
  • tölvulistaverk
  • tölvuprent
  • þurrnálarþrykk
  • tölvulistaverk
  • tölvuprent
  • tréristur
  • tréskúlptúrar
  • túskteikningar
  • útsaumsverk
  • vatnslitamyndir
  • vaxlitamyndir
  • vídeóverk
  • þurrnálarmyndir
  • ætingar

Efni. Meginefni, eitt eða fleiri, sem verkið er úr. Ef þörf er talin á því að geta annarra efna skal það gert með lýsingu á verkinu. Tvíviðum verkum er oft lýst með bindiefni og burðarefni, þ.e.  efnið sem unnið er með og efnið sem unnið er á. Þannig er olíumálverk með bindiefnið olíulit og burðarefnið striga, léreft eða masónít.

Áletrun. Allar áletranir á verki nema Áritun, sem er nafn eða upphafsstafir höfundar og ártal. Þannig er áletrun t.d. eintaksnúmer og eintakafjöldi grafíkverks eða nafn sem skráð er á bakhlið verks eða áletranir í sjálfu verkinu.

Áritun  þ.e. hvernig höfundur áritar verkið er skráð eins nákvæmlega og kostur er, jafnvel má skrá sérstaklega með hverju höf. áritar.

Staðsetning áritunar segir til um hvar verkið er áritað t.d. ntv eða oth,

Efnisinntak. Upplýsingar um inntak verksins en á etv ekki alltaf við, t.d. er erfitt að flokka mörg samtímaverk eftir listum yfir myndefni. Ýmist er hægt að lýsa myndefni eða skrá það eftir stöðluðum listum sem er kostur því auðvelt er að leita eftir stöðluðum listum. Listasafn Íslands notar meðfylgjandi lista. Nánari skilgreiningar á hugtökum er hægt að fá hjá Listasafni Íslands.

Myndefni

  • Abstraktmyndir
  • Atvinnulífsmyndir
    • fiskverkun
    • landbúnaðarstörf
    • sjómennska
  • Dýramyndir
    • fiskamyndir
    • fuglamyndir
    • húsdýramyndir
  • Fornsagnamyndir
  • Gróðurmyndir
  • Innanhússmyndir
  • Kyrralífsmyndir
  • Landslagsmyndir
  • Mannamyndir
    • andlitsmyndir
    • módelmyndir
    • sjálfsmyndir
    • skopmyndir
  • Mannvirkjamyndir
    • borgarmyndir
    • bæjarhúsamyndir
    • hafnarmyndir
    • kirkjumyndir
    • þorpsmyndir
  • Sjávarmyndir
  • Sögulegar myndir
  • Trúarlegar myndir
    • goðsagnamyndir – norrænar
    • goðsagnamyndir – grísk-rómv.
    • kristnar myndir
  • Þjóðsagnamyndir
  • Ævintýramyndir

Núverandi ástand. Lýsing á ástandi verks í stuttu máli ásamt dagsetningu og matsmanni. Nánari upplýsingar um ástand verks ætti að vera á ábyrgð forvarðar.

Varðveisla. Til dæmis upplýsingar um hverfulan efnivið (plast, gúmmí). Hvernig gera eigi við verkið sé það nauðsynlegt, t.d. hvar ákveðnir hlutar sem gætu eyðilagst eða gengið úr sér eru keyptir.

Uppsetning verksins. Nauðsynlegt er að fá upplýsingar frá listamanninum um uppsetningu og skrá þær ásamt ljósmyndum af uppsetningu.

Notkunarsaga. Geta verið þýðingarmikilar upplýsingar eins og t.d. hvar verk hefur verið sýnt.

Skyld verk. Tryggir að verk sem unnin eru í “seríu” fylgist að. Þá getur átt við að nefna hér ef tiltekið verk er í sérstökum tengslum við verk eftir annan höfund sem e.k. “varíasjón”.

Staðsetning. Upplýsingar um hvar verkin eru geymd eða hvar þau hanga uppi. (Tímabundin og varanleg staðsetning).Best að hafa samræmda lista til að velja svo auðvelt sé að finna verkin út frá staðsetningu. Skrá þarf dagsetningu þegar verki er komið fyrir eða fært úr stað. Ef verk er í mörgum hlutum þarf að skrá sérstaklega staðsetningu hvers hluta.

B) Upplýsingar um komu verksins í safnið og verðmæti:

Hvernig eignast. Máli skiptir hvort verk er keypt eða gefið eða komið í safnið með öðrum hætti.

Komudagur.

Seljandi- gefandi.  Veitir upplýsingar um seljanda og gefanda (t.d. upplýsingar um kennitölu viðkomandi).

Uppruni og upprunastaður. Sá staður  sem verkið kemur frá, þegar það kemur til safnsins. Hvar það er keypt.

Dagsetning kaupa\gjafar

Kaupverð (ath taka fram gjaldmiðil ef verk eru keypt erlendis)

Styrktaraðilar

Skilmálar kaupa/gjafar.

Fyrri eigandi eða eigendasaga. Mikilvægt að fá þessar upplýsingar hjá seljanda eða gefenda.

Tryggingamat, dagsetning og hver metur.

Upplýsingar um skráningu og heimildir tengdar verkinu:

Dagsetning skráningar og Hvenær breytt. Nauðsynlegar upplýsingar til að fylgast með sjálfri skráningunni. (Í mörgum skráningarkerfum koma þessar upplýsingar sjálfkrafa inn þegar verk er skráð eða skráningu breytt. Sömuleiðis kemur “færslunúmer” sjálfkrafa inn og er óháð skráningarnúmeri).

Nafn skrásetjara segir til umhver skráir upplýsingarnar í kerfið

Heimildir skrásetjara. Vísar til heimilda, t.d. viðtala, vottorða eða leiðbeininga sem fylgja verkum.

Prentaðar heimildir. Vísar í heimildir um tiltekið verk.

Varðveitt skjöl. Vísar í skjöl sem kunna að tengjast verkinu, gjafabréf, leiðbeiningar, höfundarvottorð o.s.frv.

Ljósmynd. Lítil ljósmynd (í lágri upplausn) af viðkomandi verki. Æskilegt er að ljósmynd fylgi öllum skráningum. Af þrívíðum verkum þarf helst ljósmynd frá nokkrum sjónarhornum. Ath. umfangsmiklar starfrænar myndir geta verið íþyngjandi fyrir skráningarkerfi og getur því verið nauðsynlegt að varðveita slíkar ljósmyndir í sérstökum gagnagrunni.

Ljósmyndun. Mikilvægt er að skrá upplýsingar um ljósmyndir sem til eru af verkinu. T.d. tilvísunarnúmer, gerð og stærð ljósmynda og hvar þær eru geymdar, hver tók ljósmyndina og hvenær og hvort notkun sé háð leyfi.

Höfundaréttur. Upplýsingar um höfundarétt.

Að lokum er rétt að taka fram að þegar ný listaverk eru keypt eða gefin safni er mikilvægt að taka ítarlegt viðtal við viðkomandi listamann og fá eins nákvæmar upplýsingar um verkið og kostur er, t.d. um tilurð þess, uppsetningu, efnivið og inntak verksins. Spurningalistar, sem hægt er að styðjast við í slíku viðtali, eru til hjá Listasafni Íslands.

*Byggt á tillögum sem unnar voru fyrir Tækninefnd Fagráðs í upplýsingatækni um staðlaða skráningu heimilda árið 1999 og leiðbeiningum frá CIDOC

 DH 07.06.2013