Hlutverk safnasjóðs er samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 að styrkja starfsemi safna sem undir lögin falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn veitt styrki til viðurkenndra safna, í samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og í önnur verkefni.

Önnur söfn, höfuðsöfn sem og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði í samstarfi við viðurkennd söfn, þar sem viðurkennda safnið er ábyrgðaraðili.

Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.

Hverjir geta sótt um styrki til eins árs

Flokkur a-i
Viðurkennd söfn

Flokkur a-h
Önnur söfn, höfuðsöfn sem og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði í samstarfi við viðurkennd söfn, þar sem viðurkennda safnið er ábyrgðaraðili.

Önnur starfsemi til eflingar á faglegu safnastarfi, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.

Flokkar umsókna

Sótt er um einn ákveðinn styrkflokk í hverri styrkumsókn

  1. Söfnun
  2. Skráning
    i. Skráning – almenn
    ii. Skráning – höfundarréttur
  3. Varðveisla
  4. Rannsóknir
  5. Miðlun
    i. Miðlun – Sýning
    ii. Miðlun – Útgáfa
    iii. Miðlun – Stafræn miðlun
    iv. Miðlun – Önnur
  6. Safnfræðsla
  7. Samstarf viðurkennds safns við safnvísa, setur, sýningar, höfuðsöfn og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu
  8. Annað
  9. Efling grunnstarfsemi

Við mat á umsóknum í flokkum a-h er fylgt eftir reglum um verkefnastyrki sem fram koma í safnalögum nr. 141/2011 og úthlutunarreglum safnasjóðs nr. 551/2016. Í flokknum i. Efling grunnstarfsemi er fylgt eftir umsóknar- og úthlutunarreglum um rekstrarstyrki sem fram koma í safnalögum nr. 141/2011 og úthlutunareglum safnasjóðs nr. 551/2016.

Athugið að einungis viðurkennd söfn geta sótt um styrk í flokki i. Efling grunnstarfsemi.

Nánari upplýsingar má finna í úthlutunar- og verklagsreglum safnaráðs (uppfærðar verklagsreglur verða birtar um miðjan nóvember 2019). Einnig eru mjög greinargóðar upplýsingar á umsóknareyðublaðinu.

Nánari reglur vegna umsóknarflokka

Umsóknir í flokknum b. Skráning

Samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 er safnaráði falið að hafa eftirlit með viðurkenndum söfnum sem starfa eftir skilmálum safnaráðs um starfsemi viðurkenndra safna. Einn hluti eftirlitsins er Eftirlit með skráningu gripa og aðgengi að safnkosti og sýningum og mun það eftirlit hefjast með eftirfylgni og símati á þeim styrkjum sem fást til skráningar úr safnasjóði 2020.

Til að skráningarumsóknir uppfylli kröfur eftirlitsins þurfa eftirfarandi atriði að koma fram í umsókn:

  • Upplýsingar um að skráningaraðili hafi kunnáttu í skráningu. Dæmi: Ef skráð er í Sarp, þá þarf skráningaraðili að hafa setið vinnustofu/námskeið í kerfinu eða hafa reynslu af því. Helst þarf að taka fram hver muni sjá um skráninguna. Alltaf þarf skráningaraðili að skrá sig inn í skráningarkerfi á sínum eigin aðgangi.
  • Hvaða safnkost skal skrá og hvernig því verður háttað.
  • Hver er staða skráningar? Dæmi: Grunnskráning, lokaskráning eða annað. Einnig skal taka fram hvort skráningin sé nýskráning gripa, endurskráning gripa eða yfirfærsla á milli kerfa.
  • Verða ljósmyndir teknar og fylgja skráningu?
  • Verður skráning birt á ytri vef eða ekki? Dæmi á sarpur.is.

Umsóknir í flokknum i. Efling grunnstarfsemi

Þessi flokkur umsókna er einungis ætlaður viðurkenndum söfnum. Undanþegin eru söfn í eigu ríkisins og viðurkennd söfn sem fá rekstrarstyrki á fjárlögum.

Við mat á umsóknum í flokki i, Efling grunnstarfsemi er fylgt eftir umsóknar- og úthlutunarreglum um rekstrarstyrki sem fram koma í safnalögum nr. 141/2011 og úthlutunareglum safnasjóðs nr. 551/2016.

  • Einungis einn styrkur í þessum flokki er veittur til styrkhæfra safna.
  • Þessi flokkur er til að styðja við grunnstarfsemi safnsins. Minnt er á ábyrgð eiganda og/eða stjórnar viðurkenndra safna. Styrkur í þessum flokki á að efla grunnstarfsemi safnsins, vera fé sem er ætlað að efla starfsemi þeirra, en er ekki hluti af nauðsynlegum rekstrargrunni þeirra. Eigandi safns skal tryggja safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess, sbr. ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 10. gr. safnalaga nr. 141/2011, og er styrk í þessum flokki úr safnasjóði ekki ætlað að leysa eiganda undan þeirri skyldu.
  • Launakostnaður og húsnæðiskostnaður eru dæmi um nauðsynlegan fjárhagsgrundvöll.
  • Dæmi um styrki sem falla undir þennan flokk eru t.d. viðbrögð við eftirliti safnaráðs, endurnýjun eða uppfærsla á öryggisbúnaði, sýninga- eða geymslubúnaði, nýsköpun í safnastarfi, stuðningur við rekstur sameinaðra safna eða samstarf um miðlun og varðveislu.
  • Rekstrarupplýsingar verða sóttar í síðustu Árlega skýrslu viðurkenndra safna
  • Nauðsynleg fylgiskjöl:
    • Ársreikningur síðasta rekstrarárs. (Fylgir Árlegri skýrslu viðurkenndra safna sem umsækjandi á þegar að hafa skilað. Ef þeirri skýrslu hefur ekki verið skilað, er umsóknin ógild.)
    • Fjárhagsáætlun næsta árs (sent sem viðhengi með umsókninni). Í þeirri fjárhagsáætlun má vera ítarlegri kostnaðargreining vegna umsókna í flokknum i, Efling grunnstarfsemi.
  • Reglur umsókna
  • Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfrestur rennur út verða ekki teknar til greina.
  • Safnaráð setur hvorki lágmark né hámark á umsóknarupphæð styrkja né fjölda umsókna.
  • Ekki er sjálfkrafa gerð tillaga um styrk til allra umsækjenda sem uppfylla skilyrði laga um viðurkennd söfn heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins og fjölda og gæðum umsókna.
  • Inntak umsóknar gildir. Ef safnaráð metur það svo að umsókn sem er merkt flokknum a-h falli að reglum flokksins i, Efling grunnstarfsemi,þá verður hún metin sem slík.
  • Safnaráð áskilur sér rétt til þess að fá utanaðkomandi matsmenn vegna umsókna ef þörf krefur.
  • Allir styrkþegar skila lokaskýrslu um nýtingu styrks, fyrir styrki 1.500.000 kr. og hærri, skila styrkþegar einnig áfangaskýrslu.

Safnaráð fer yfir allar umsóknir í  safnasjóð og metur þær með faglegum hætti með hliðsjón af safnalögum nr. 141/2011, úthlutunarreglum safnasjóðs nr. 551/2016 og verklagsreglum safnaráðs.