Úr safnalögum nr. 141/2011
V. kafli. Viðurkennd söfn og starfsemi þeirra.
14. gr. Starfsemi.
Söfn samkvæmt lögum þessum eru með fastan rekstur og eru rekin til að þjóna íslensku samfélagi. Þau eru opin almenningi og safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess. Þau skulu hafa að leiðarljósi að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
Söfn skulu leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun. Þau skulu skila stefnumörkun um starfsemi sína til viðeigandi höfuðsafns á fjögurra ára fresti.
Söfn skulu taka þátt í faglegu samstarfi svæðisbundið, á landsvísu og á alþjóðavettvangi eftir því sem við verður komið.
15. gr. Lán safngripa.
Söfnum er heimilt að lána tímabundið gripi eða verk til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.
Tryggilega skal gengið frá varðveislu safngripa sem eru lánaðir og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður viðkomandi safns ákveður.
16. gr. Ráðstöfun safngripa.
Hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. skal safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn.
17. gr. Förgun safngripa.
Óheimilt er að farga safngripum nema ríkar ástæður séu til. Heimilt er að grisja safnkost á grundvelli grisjunaráætlunar sem höfuðsafn samþykkir.
Það höfuðsafn sem í hlut á tekur ákvörðun um förgun safngripa að fenginni umsögn safnaráðs.
18. gr. Notkun mynda af safngripum.
Ekki má nota myndir af gripum eða verkum safna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanns, enda sé gætt réttar rétthafa samkvæmt höfundalögum.
19. gr. Gjaldtökuheimild.
Öllum söfnum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er þeim heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun og hvers konar aðra þjónustu til að standa straum af kostnaði. Söfnin setja gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
Ákvörðun um aðgangseyri og aðra gjaldtöku annarra safna er í höndum eigenda þeirra.
20. gr. Gjafir og fjárframlög.
Um frádrátt af tekjuskatti vegna gjafa eða fjárframlaga til safna fer samkvæmt lögum um tekjuskatt.