Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) hefur útnefnt fjóra einstaklinga nafnbótinni heiðursfélagi FÍSOS. Þau eiga öll það sameiginlegt að hafa sinnt safnamálum af miklum metnaði í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í samfélagi safnafólks. Þetta eru þau: Elín S. Sigurðardóttir, Frosti F. Jóhannesson, Guðmundur Ólafsson og Inga Jónsdóttir
Elín S. Sigurðardóttir hefur frá árinu 1992 séð um rekstur Heimilisiðnaðarsafnsins en safnið var fyrst opnað á 100 ára afmæli Blönduósbæjar árið 1976. Hún er forstöðumaður og jafnframt formaður stjórnar Heimilisiðnaðarsafnsins.
Elín hefur haldið uppi faglegu og öflugu starfi á Heimilisiðnaðarsafninu í áratugi. Hún hefur staðið á bak við uppbyggingu þess, fyrir mörgum áhugaverðum sýningum, verkefnum sem tengjast rannsóknum á handverki og viðburðum í héraði. Elín hefur verið sérstaklega lunkin við að fá lista- og fræðafólk til samstarfs við safnið og stýrt þessari sjálfseignarstofnun af stakri prýði.
Félag íslenskra safna- og safnafólks þakkar Elínu fyrir ómetanlegt framlag hennar til varðveislu og miðlunar á íslenskum heimilisiðnaði í áratugi.
Frosti F. Jóhannsson þjóðháttafræðingur starfaði á National Museum of Iceland um árabil. Þar starfaði hann m.a. að undirbúningi upplýsingakerfis Sarps um nokkurra ára skeið. Frosti var fyrsti framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Sarps sem stofnað var árið 2002 og sinnti þeirri stöðu til ársins 2013. Hann vann gríðarlega öflugt starf við uppbyggingu þessa mikilvæga skráningar- og miðlunartóls sem gagnagrunnurinn Sarpur er. Árið 2014 fékk Rekstrarfélag Sarps Íslensku safnaverðlaunin fyrir vefinn sarpur.is. Frosti var stofnfélagi í FÍSOS og sat í fyrstu stjórn félagsins sem kosin var á stofnfundinum árið 1981. Hann var einnig ritstjóri hins merka bókaflokks Íslensk þjóðmenning.
Félag íslenskra safna- og safnafólks þakkar Frosta fyrir ómetanlegt framlag hans til þróunar og miðlunar á stafrænum gagnasöfnum safna.

Myndir tók Hörður Geirsson, ljósmyndari.
Guðmundur Ólafsson var stofnfélagi í FÍSOS. Hann hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands árið 1978 og starfaði þar allan sinn starfsferil til árins 2018. Þá var hann í ritstjórn og ábyrgðarmaður (sex heftum) af Ljóra, blaði félagsins, sem kom út á árunum 1980 til 1991. Guðmundur var stofnfélagi Félags íslenskra fornleifafræðinga sat í stjórn þess um skeið, stofnfélagi NABO sem er þverfagleg samtök fornleifafræðinga og skyldra greina og sat um áratugaskeið í fulltrúaráði Viking Congress-samtakanna. Hann var hvatamaður og frumkvöðull að skipulagðri fornleifaskráningu á Íslandi, sem og að tölvuvæðingu Þjóðminjasfns Íslands og stafrænum gagnagrunni minjasafna, sem í dag heitir Sarpur.
Félag íslenskra safna- og safnafólks þakkar Guðmundi fyrir ómetanlegt framlag hans til fornleifarannsókna og safnastarfs.
Inga Jónsdóttir var safnstjóri Listasafns Árnesinga frá árinu 2007 til 2020. Hún stýrði Listasafni Árnesinga með miklum sóma og undir stjórn hennar hlaut Listasafn Árnesinga íslensku safnaverðlaunin árið 2018 meðal annars fyrir fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar, öflugt fræðslustarf og öfluga útgáfu. Inga hefur setið í nefndum fyrir hönd FÍSOS varðandi íslensku safnaverðlaunin og sinnti formannsstöðu þar. Einnig sat hún í stjórn Sarps, sem varamaður 2014-15 og ritari 2018-19. Þá var Inga formaður Samtaka safna á Suðurlandi.
Félag íslenskra safna- og safnafólks þakkar Ingu fyrir ómetanlegt framlag hennar til safnastarfs á sviði lista.