Úthlutun símenntunarstyrkja til viðurkenndra safna 2017

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að fenginni umsögn safnaráðs úthlutað símenntunarstyrkjum úr aukaúthlutun safnasjóðs til viðurkenndra safna árið 2017. Í aukaúthlutun safnasjóðs á síðasta ársfjórðungi geta viðurkennd söfn sótt um verkefnastyrki til símenntunar, svokallaða símenntunarstyrki. Tilgangur með þessum styrkjum er að styrkja faglegt starf safnanna og efla þátt símenntunar.

Veittar voru tvær tegundir styrkja, Símenntun fyrir starfsmenn safns annars vegar og Námskeið/fyrirlesarar hins vegar. Símenntun fyrir starfsmenn safns má nota til að sækja formlega menntun (til dæmis með skipulögðum námskeiðum) eða til óformlegri námsferða, svo sem heimsókn á söfn hérlendis sem erlendis, eða sem ferða- og uppihaldsstyrk til starfsmannaskipta safna. Styrktegundin Námskeið/fyrirlesarar er hugsuð sem styrkveiting til námskeiðshalds eða fyrirlestra innanlands sem gæti nýst stærri hóp safnamanna.

Alls fengu að þessu sinni 27 viðurkennd söfn alls 35 símenntunarstyrki, frá 28.700 kr. til 300.000 kr. hver. 19 styrkir af tegundinni Símenntun fyrir starfsmenn safns voru veittir, alls 4.911.700 kr. og 16 styrkir voru veittir af tegundinni Námskeið/fyrirlesarar, alls 4.302.000 kr. og var heildarúthlun alls 9.213.700 kr. 

Lista yfir styrkveitingar og styrkþega má finna hér.