Af málþingi um söfn og ferðaþjónustu

Aukinn áhugi erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi

Safnaráð, Íslandsstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu að málþingi um söfn og ferðaþjónustu föstudaginn 18. nóvember sl. og var þingið jafnframt styrkt af Þjóðminjasafni Íslands. Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri safnaráðs setti þingið og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp í byrjun þings. Meðal framsögumanna voru Inga Hlín Pálssdóttir forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitafélaga ásamt fulltrúum úr íslenskri stjórnsýslu, fræða- og safnageiranum, markaðsstofum landshlutanna og Samtökum um söguferðaþjónustu.

Í erindum framsögumanna kom fram að umfang safnageirans á Íslandi hefði aukist mikið á síðustu árum og margir fundarmanna létu í ljós þá skoðun sína að þeir hefðu í störfum sínum skynjað gríðarlegan áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi. Þar gengdu söfnin vítt og breitt um landið lykilhlutverki enda hafi kannanir meðal erlendra ferðamanna leitt í ljós mikinn áhuga á íslenskri menningu og sögu og að heimsókn á söfn væri liður í ferð margra ferðamanna til Íslands. Þetta undirstrikaði mikilvægi þess að efla samspil safna og ferðaþjónustu og létu fundarmenn í ljós ánægju með málþingið sem vettvang fyrir slíkt samspil. Fjárskortur og undirmönnun væri þó vandamál sem mörg söfn glímdu við en aukinn áhugi erlendra ferðamanna á heimsóknum á söfn byði upp á nýja tekjumöguleika og ný sóknarfæri.

Útsendingu frá málþinginu má sjá á eftirfarandi vefslóð:
www.youtube.com/watch?v=Pi17deUCMg8 (Opnast í nýjum vafraglugga)